Velkomin á síðuna mína
Hrönn Friðriksdóttir
spámiðill
Ég býð einkatíma í spámiðlun bæði á staðnum og í gegnum vefinn. Ég býð einnig upp á draumaráðningar og hin ýmsu námskeið. Þú getur lesið meira hér að neðan og bókað tíma.Ég hef starfað sem spámiðill frá 1998. Ég legg áherslu á að skoða nútíðina, á hvaða leið þú ert og miðla þeim leibeiningum sem þú færð. Ég skoða einnig framtíðina en mjög misjafnt er hversu langt fram í tímann ég fer, mínir leiðbeinendur stýra því. Ég tengist líka þeim sem til þín vilja koma úr handanheimum.


Einkatímar í spámiðlun
Ég býð upp á 60 mínútna tíma þar sem við förum yfir möguleika þína á næstunni. Ég miðla bæði frá þeim sem með þér koma úr handanheimum og tek við skilaboðum um þá möguleika sem eru þér opnir. Ég legg áherslu á að hafa tímana jákvæða og uppbyggilega.Ég nota sígaunaspil og önnur leiðsagnarspil, auk þess að hafa kristalskúlu og kristala mér til stuðnings.Tími hjá spámiðli er ávallt dægradvöl. Það er ekki hægt að spá nákvæmlega fyrir um tíma eða atburði heldur er mér leiðbeint um það sem er mögulegt fyrir þig á þeim tíma sem þú kemur til mín. Það ætti ekki að lifa eftir spádómi.Hvort sem þú kemur í tíma til mín eða ert á vefnum þá getur þú alltaf tekið tímann upp.
Draumráðningar
Ég hef haft áhuga á draumum og draumatáknum frá því ég var barn, og var farin að skrifa draumana mína um 12 ára aldur.Það er margt sem skiptir máli í draumum en við þurfum öll að læra okkar draumatákn, því þarf að skrifa niður öll smáatriði sem við getum munað.
Ég tek að mér að ráða drauma en þá þarf að senda mér draum í tölvupósti eða sem skilaboð á Facebook og greiða fyrir ráðninguna. Ég sendi þér svo draumráðninguna til baka.


Námskeið
Það eru tvö námskeið framundan hjá mér, annars vegar Hugarflæði og hins vegar Draumráðningar.Ég verð með námskeiðið Hugarflæði - Hugleiðsla og skapandi skrif í samstarfi við Auði Jónsdóttur rithöfund 4.-5. október milli 10 og 15.30 báða dagana.Langar þig að skrifa og fiska djúpsjávarfiska úr vitundinni?
Þegar þú skrifar veistu meira en þig grunar. Í þér býr ýmislegt sem orðin fanga, megnug þess að koma þér á óvart. Orðin þín.
Hugleiðsla tengir hugann við djúpið í vitundinni, allt sem þar býr.
Á námskeiðinu Hugarflæði verður hugleiðsla notuð til að opna hugann áður en byrjað er að skrifa. Á milli skrifæfinga verður hugleitt og þannig losað um hugmyndaflugið, flæðið og áræðnina. Með því móti má bæði veiða djúpsjávarfiska og finna orð sem eiga eftir að fæða af sér eitthvað stærra. En jafnframt nota skrifin til að skoða vitundina og skerpa innsæið.
Kennd verða skapandi skrif og gerðar skrifæfingar stílaðar inn á að opna fyrir flæðið og ná að kjarna hugmyndir. Byrja að skrifa – á skapandi hátt! Já, eða efla hugann til að halda áfram með það sem leynist í skrifborðsskúffunni. Eins verður talað um hvernig nota má skrif til að heila minningar.
Einnig verður farið yfir hvernig má draga skáldsögu í höfn, aðferðir til að búa til lifandi karaktera og svo, auðvitað, verður farið inn á hvernig litlir galdrar geta fengið texta til að lifna við – svo eitthvað sé nefnt.Draumráðningar - námskeið hjá Starcodes Academy
Á námskeiðinu lærir þú að rýna í drauma þína og að túlka þá.Draumar eru leið sálarinnar til að segja okkur á hvaða leið við erum í lífinu og benda okkur á hvað við getum gert betur eða hvað okkur ber að varast. Ég hef haft áhuga á draumum síðan ég var unglingur og fann fljótt út að þeir merktu eitthvað fyrir mig. Ég hef æ síðan hlustað á drauma mína.
Á námskeiðinu rýnum við í draumana þína og þarft þú að halda draumadagbók fyrir og á meðan námskeiðinu stendur. Þú munt fá nánari leiðbeiningar í tölvupósti að lokinni skráningu.Námskeiðið er þrjú skipti, laugardaginn 11. október, sunnudaginn 19. október og laugardaginn 25. október milli 10 og 13 alla dagana.
Skráning fer fram á vef Starcodes Academy