Ég er fædd í Reykjavík í desember 1957. Foreldrar mínir voru Friðrik Ólafsson og Kristín Lúðvíksdóttir, við vorum fimm systkini, elsti bróðir minn Lúðvík lést úr krabbameini í desember 2008. Ég ólst upp í Reykjavík til 9 ára aldurs, en þá fluttum við í Mosó. Þar var dásamlegt að alast upp, mikið frelsi og þar lærði ég að elska náttúruna og dýrin. Við brölluðum mikið saman systkinin og fórum í ótal ævintýraferðir, bæði upp á Úlfarsfell og niður í fjöru.

Ég fluttist norður í land 19 ára, vorið 1977, þá búin að eignast mitt fyrsta barn, hana Ölmu Hrönn. Ég bjó í sveitinni í rúm 9 ár og þar eignaðist ég Huldu Sigríði 1979 og Friðrik 1984.

Þó svo að ég hafi verið skyggn frá fæðingu fór ég ekki að sinna andlegum málum fyrr en 1996. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu skyggn ég var fyrr en ég fór að vinna skipulega í mér. Ég byrjaði hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands, í hóp hjá Friðbjörgu Óskarsdóttur. Þar var gott að vera og Friðbjörg kenndi mér mikið.

Mín mesta vinna var og er að vinna í sjálfri mér, aga mig, losa um reiði, læra þolinmæði og hugleiða. Ég hef sótt mörg námskeið bæði hjá innlendum og erlendum aðilum. Ég hef lesið mikið af bókum um andleg málefni, einnig sjálfshjálparbækur og hafa margar bækur haft góð áhrif á mig.

Ég byrjaði fljótlega að skoða spil og þreifa mig áfram með þau. Fyrstu spilin sem ég eignaðist voru sígaunaspil, þau komu „óvart“ upp í hendurnar á mér. Ég hafði nú ekki trú á að ég gæti spáð eitthvað, en ég var rosalega spennt fyrir því. Það er einmitt það sem þarf til þess að verða góður, ekki bara hæfileika heldur líka mikinn áhuga. Það opnaðist fyrir mér heill heimur í spilunum, ég bara sá helling strax. Ég eignaðist svo kristalskúlu og vá! Það opnaðist miklu meira, það er að segja þegar ég var búin að ná sambandi við hana sem tók nú eina 8 mánuði - já þetta var þolinmæðisverk.

Ég er búin að prófa mörg spil, t.d. ótal tegundir af tarotspilum, en þau tala ekki eins til mín eins og sígaunaspilin, kannski vegna þess að sígaunaspilin eru svo einföld og mikið hægt að „lesa á milli línanna“, ég hef nú alltaf viljað fara mínar eigin leiðir. Ég nota ein tarotspil sem heita Osho-Zen, yndislega falleg spil, svo er ég með blómaspil sem hjálpa mér að lesa úr persónu og hæfileikum þess sem kemur til mín. Ég nota englaspil mikið fyrir sjálfa mig, gott að draga spil fyrir daginn og fá leiðsögn. Englaspilin eru leiðsagnaspil en ekki spáspil. 

Ég nota orkusteina, bæði við vinnu og eins fyrir sjálfa mig. Steinarnir hafa hjálpað mér mikið, bæði til að opna mig og eins til að vernda.

Ég sótti tíma hjá Þóru Kristínu Arthursdóttur í mörg ár. Hún kveikti áhuga minn á steinum og kenndi mér um þá. Hjá henni skoðaði ég fyrri líf sem breytti lífssýn minni og hjálpað mér að skilja hver tilgangur minn er í þessu lífi.

Ég er áhugamanneskja um drauma, hef verið það frá unglingsárum. Draumar hafa leiðbeint mér og hjálpað mér mikið, sérstaklega á erfiðleikatímabilum.